Gagnrýni frá Pressan.is Ragnheiður Eiríksdóttir

Svo miklu meira en dans: FUBAR eftir Siggu Soffíu
Ég er mikill unnandi dans, og reyni að sjá sem flestar danssýningar sem settar eru upp í borginni. Dansflokkurinn hefur skapað sér fastan sess í menningarrútínu margra, og fleiri og fleiri eru að uppgötva hversu sniðugt það er að kaupa sér áskriftarkort á danssýningar hans. Minnisstæðasta sýning flokksins síðustu ár, að mínu mati, er sýningin Kafli 2 og himininn kristallast, sem ég skrifaði örlítinn dóm um í DV í fyrra. Ég var því mjög spennt að sjá sýninguna FUBAR, eftir Siggu Soffíu (Sigríði Soffíu Níelsdóttur), sem er höfundur þeirrar sýningar. Samkvæmt Wikipediu er FUBAR skammstöfun sem notuð er í hernaði og þýðir „fucked up beyond all/any recognition/ repair/ reason/ redemption.“ Dálítið dramatískt, en það er verkið líka. 
Fubar er hér um bil sólóverk, þó að píanóleikarinn Jónas Sen eigi eftirminnilega innkomu sem stoðdansari í upphafi verksins. Fubar er líka óvenju persónulegt verk. Það fjallar um djúpar tilfinningar, breyskleika og ákveðna angist. Verkið byrjar á því að áhorfendur fá að kynnast Siggu, ansi vel, en ansi hratt líka. Hún fer á skemmtilegu hundavaði yfir ýmsa þætti í persónuleika sínum, og ýmsa atburði í lífi sínu á einlægan hátt. Smám saman tekur dansinn yfir og við fáum að upplifa hér um bil allt hreyfigallerí dansarans. Hún byrjar hægt og vekur upp hungur hjá áhorfandanum sem þyrstir í að sjá þennan fallega líkama gera meira og þessa fallegu konu túlka meira. Það fær hann líka, því að í verkinu er stígandi sem kallast á við starf dansarans… byrjar með upplifun sem kveikir innblástur, svo upphitun, svo magnast dansinn og miðlun tilfinninga – hér um bil. Það var viðeigandi að Sigga skyldi klæðast rauðu – ótrúlega fallegum búning sem hannaður er af Hildi Yeoman – því einhvern veginn var eins og hún væri að opna sig upp á gátt, við sáum holdið óvarið, já og sálina.

Ég þarf aðeins að minnast meira á Jónas Sen – tónlist hans, nærvera og þátttaka í verkinu gaf því einhvern stöðugleika, hlýju og ramma. Það var einhver léttir að sjá hann styrkja brothættu listakonuna með tilfinningarnar (sem er samt einhvers konar mótsögn því hún sýndi líka svo magnaðan styrk með líkamanum). 

Using Format